Norræni skjaladagurinn 8. nóvember
„mjer þikir heldur sárt að vita þig verða eptir þegar við ætlum að halda hóp …“ er yfirskrift sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum laugardaginn 8. nóvember. Sýnd verða skjöl og myndir tengdar Vesturförum, sem eru þema skjaladagsins að þessu sinni.
Sendibréf úr fórum Björns Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði eru sérstaklega til umfjöllunar, en þau eru skrifuð af móður hans og öðrum ættmennum frá Þorpum við Steingrímsfjörð sem fluttu til Ameríku sumarið 1883.
Sýningin er í Safnahúsinu við Eyrartún, Gamla sjúkrahúsinu, á Ísafirði og verður hún opin í nóvember á opnunartíma hússins, frá kl. 13 til 18 á virkum dögum og kl. 13 til 16 á laugardögum.