
Norræni skjaladagurinn 2015
Ásýnd dauðans er yfirskrift sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum laugardaginn 14. nóvember. Yfirskrift skjaladagsins að þessu sinni er „Án Takmarka“ („Gränselöst“) og mun skjalasafnið sýna skjöl og myndir er tengjast andláti og greftrun fyrr á tímum, s.s. húskveðjur, líkræður, grafskriftir og grafljóð. Þá verður einnig fjallað um þann sið sem tíðkaðist í hinum vestræna heimi á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar að fá ljósmyndara til að taka myndir af látnum ástvinum.
Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti. Árið 2001 sameinuðust þau um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember.
Upphaflega var ákveðið var að annað hvert ár skyldi dagurinn helgaður sameiginlegu norrænu þema. Þess á milli áttu söfnin að hafa frjálsar hendur um val á þema. Árið 2006 var ákveðið að hafa sameiginlegt þema þriðja hvert ár og skyldi þemað ákveðið og kynnt á norrænum skjaladögum árið áður. Það fyrirkomulag hefur haldist að mestu leyti síðan.
Mörg skjalasöfn opna hús sín fyrir almenningi á þessum degi og vekja athygli á tilteknum skjalaflokkum, oft með því að setja upp sýningar á völdum skjölum sem tengjast þema dagsins hverju sinni. Önnur setja upp sýningar sem tengjast skjaladeginum með einhverjum hætti, en standa uppi í nokkrar vikur. Óhætt er að fullyrða að eitthvað sé á döfinni hjá langflestum skjalasöfnunum um þetta leyti ársins.
Þema skjaladagsins í ár er samnorrænt „Gränslöst“. Íslensk yfirskrift skjaladagsins er „Án takmarka“. Þemað vísar til þess sem er óvenjulegt, utan þess sem gengur og gerist, lýtur engum eða litlum takmörkunum, eða er jafnvel utan þessa tilverustigs. Hægt er að fræðast um sýningar safnanna á vefnum Norræni skjaladagurinn 2015 og kanna hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem hafa opið á skjaladeginum 14. nóvember 2015.
Þótt lög gildi um opinbera skjalavörslu, er ekki nægilega áréttað að einstaklingar í félögum, stofnunum og fyrirtækjum ráða miklu um hvað verður um gögn sem þeir vinna með eða varðveita. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl af ýmsu tagi eiga erindi á skjalasöfn. Því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn, eða Þjóðskjalasafn, ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við, eða vill koma í örugga vörslu.