Styrkur til skönnunar á elstu fundargerðabókum byggingarnefndar

Skjalasafnið á Ísafirði hefur fengið 850 þús. króna styrk vegna verkefnisins „Ljósmyndun/skönnun á elstu fundargerðabókum byggingarnefndar Ísafjarðarkaupstaðar“. Um er að ræða verkefnastyrki á fjárlögum árið 2016 sem ætlaðir eru héraðsskjalasöfnum landsins til skönnunar og miðlunar á völdum skjalaflokkum. Í ár höfðu forgang verkefni sem byggðust á að skanna eldri skjöl sveitarfélaga. Þjóðskjalasafn Íslands fékk það hlutverk að úthluta styrkjunum en alls bárust 19 umsóknir frá 15 héraðsskjalasöfnum og samtals var sótt um ríflega 30 m.kr. í styrki. Til úthlutunar voru 15 m.kr. sem fóru til 12 verkefna frá 11 héraðsskjalasöfnum.

Á þessu ári eru 150 ár frá stofnun Ísafjarðarkaupstaðar en 26. janúar 1866 staðfesti Kristján konungur IX. reglugerð um kaupstaðarréttindi Ísafjarðar og stjórn bæjarmálefna þar. Um leið var staðfest reglugerð um stofnun byggingarnefndar á Ísafirði sem skyldi skipuð fimm mönnum: bæjarfógeta, tveimur bæjarfulltrúum og tveimur bæjarbúum sem ekki áttu sæti í bæjarstjórn. Nefndin kom saman til fyrsta fundar síns 18. október 1866. Mörg verkefni biðu hennar og það brýnast að koma einhverju skipulagi á bæinn, ákveða götur og torg, en bygging húsa hafði fram til þessa verið stjórnlítil og ekki farið eftir neinum fyrirfram ákveðnum reglum. Á fyrsta fundinum voru þessum götum gefin nöfn: Aðalgata, Kirkjustígur, Brunngata, Sjávargata, Strandgata og Torgið.

Gerðabækur byggingarnefndarinnar eru til frá byrjun sem og skipulagsuppdrættir frá ýmsum tímum þannig að varðveist hefur heildstætt yfirlit yfir uppbyggingu á Eyrinni í Skutulsfirði frá upphafi til dagsins í dag. Verður styrkurinn notaður til að skanna/ljósmynda þessar heimildir og er ráðgert að sú vinna hefjist í sumar. Stefnt er að því að innan nokkurra ára verði skjölin aðgengileg á vef safnsins og einfalt að leita þar eftir upplýsingum, t.d. fyrir þá sem gera upp gömul hús á Ísafirði.

Velja mynd