Norræni Skjaladagurinn 2022

Norræni skjaladagurinn er árlegur kynningar­dagur skjalasafnanna á Norðurlöndunum. „Hreinlæti“ er þema norræna skjaladagsins 13. nóvember árið 2022. Vatnsveita Ísfirðinga og taugaveikin Allt fram á 20. öld var neysluvatn Ísfirðinga vart hæft til manneldis…

Norræni skjaladagurinn er árlegur kynningardagur skjalasafnanna á Norðurlöndunum.

„Hreinlæti“ er þema norræna skjaladagsins 13. nóvember árið 2022.

 

Vatnsveita Ísfirðinga og taugaveikin

Allt fram á 20. öld var neysluvatn Ísfirðinga vart hæft til manneldis. Það var fengið úr brunnum sem voru nokkrir í bænum og í viðtali við Guðmund Pálsson beyki (1850-1937), þar sem hann rifjar upp árin 1868–1900 á Ísafirði, segir hann að brunnar þessir hafi verið fullir af skordýrum og gróðri: „Sá ég þá, að þetta voru mestu óþrifaholur, fullar af svörtum pöddum með hvíta hausa, og alls konar gróðri.“  Guðmundur fór í kjölfarið á fund Þorvaldar Jónssonar héraðslæknis til að fá hann til að tala við bæjarstjórnina um mikilvægi þess að fá vatn leitt í bæinn úr hlíðinni en Þorvaldur tók því fálega og ekkert gerðist í vatnsveitumálum bæjarins enn um sinn. (Ísafjörður árið 1868, 1935).

Samkvæmt Jóni Grímssyni (1887-1977) voru nálægt aldamótunum 1900 um 20 brunnar samanlagt í efri og neðri bænum. Margir brunnana höfðu hlemm og jafnvel hengilás til að ekki færi neitt ofan í þá. Aðrir brunnar voru opnir og gerðu börn sér það stundum að leik að kasta ýmsu drasli í þá. Æ fleiri óánægðir bæjarbúar fóru að krefjast betra neysluvatns í stað brunnvatnsins, sem sagt var vera ekkert annað en „illa síaður sjór“. (Jón Grímsson, 1935).

Sorpi og skólpi var oftast nær kastað í bakgarða eða í fjörurnar í bænum og má ætla að þar hafi verið ein af ástæðunum fyrir spilltu vatni í bænum. Einnig töldu sumir að staðsetning kirkjugarðs bæjarins hefði áhrif á vatnsgæðin: Guðmundur Bergsson búfræðingur (1869-1946) skrifar í umfjöllum sinni um vatnsból bæjarins eftirfarandi í Þjóðólf haustið 1900:  „Eyrin stendur undir snarbrattri fjallshlíð og er grafreitur bæjarins undir henni. Síast því vatn undan fjalllinu gegnum hann og auk stendur sjór í honum um hverja flæði. Miklar líkur eru til, að þetta návatn hafi getað komizt inn í brunna þá, er skammt standa frá grafreitnum. Má því nærri geta hversu heilnæmt þetta vatn hefir verið.“ (Guðmundur Bergsson, 1900).

Börn Hannesar Hafstein. Sigurður, Kristjana (t.v.) og Ástríður. Sigurður og Kristjana létust bæði af völdum taugaveiki.

 

Taugaveiki hafði verið landlægur sjúkdómur á Ísafirði lengi vel og var lélegu neysluvatni kennt þar um og vissulega höfðu íbúar Ísafjarðar -sérstaklega þeir sem neytt höfðu vatnsins úr brunnum neðan kirkjugarðsins – veikst af taugaveiki og margir höfðu látist úr sjúkdómnum. (Þórunn Valdimarsdóttir, 2002).

Hannes Hafstein, sýslumaður Ísfirðinga 1896–1904, hafði frá komu sinni vestur haft áhuga á að bæta vatnsmál bæjarins. Bæjarstjórnin vildi ekki taka á þessum málum fyrr en eftir mikinn taugaveikifaraldur í bænum árið 1900. Sigurður, elsti sonur Hannesar, lést úr taugaveiki í byrjun febrúar árið 1900 aðeins 9 ára gamall. Í ævisögu Hannesar, Ég elska þig stormur, eftir Guðjón Friðriksson stendur eftirfarandi: „Nú eftir þennan síðasta taugaveikifaraldur fær hugmyndin byr undir báða vængi og Hannes er harðákveðinn í að berja málið í gegn. Læknarnir á Ísafirði fullyrða að taugaveikin stafi af lélegu neysluvatni og hann ætlar ekki að láta fleiri börn á staðnum verða fórnarlömb þess.“  (Guðjón Friðriksson, 2005).

Hannes fór á fund Tryggva Gunnarssonar frænda síns og bankastjóra Landsbankans og fékk lán upp á 10 þúsund krónur til handa Ísafjarðarkaupstað fyrir gerð vatnsveitu. Hafist var handa við gerð vatnslagnar úr Eyrarhlíð í lok maí 1900 og var unnið að verkinu sumrin 1900 og 1901, en því lauk um haustið 1901. Þetta var fyrsta vatnsveita landsins, en í kjölfarið fóru fleiri bæir á landinu að leiða vatn til sín. Þetta var upphafið að betri hreinlætismálum Ísfirðinga og fljótlega fór fólk að setja í hús sín rennandi vatn og vatnssalerni. (Guðjón Friðriksson, 2005. Jón Þ. Þór, 1986).

Þrátt fyrir þessar framfarir í vatnsveitumálum Ísfirðinga tókst ekki að uppræta taugaveiki fullkomlega og áfram gætti smita í bænum. Árið 1904, þegar Hannes Hafstein var að taka við embætti Íslandsráðherra, veiktist Kristjana, elsta dóttir hans, af taugaveiki og lést skömmu síðar. (Guðjón Friðriksson, 2005).

Taugaveikitilfellum á Íslandi fór fækkandi þegar leið á öldina og úrbætur í vatns- og fráveitumálum voru farnar að aukast og svo loks þegar bóluefni og lyf við taugaveiki fóru að vera aðgengileg almenningi um miðja 20. öld. Enn er taugaveiki mikið heilsufarsvandamál í mörgum fátækari löndum heims þar sem heilbrigðisþjónusta og hreint vatn er af skornum skammti. (Jón Steffensen, 1975. Jón Sigurðsson, 2011).

Ísafjörður árið 1900

Ísafjörður árið 1900

 

Úr dagbók Guðmundar Jónssonar lausamanns, en hann vann við gerð vatnslagnarinnar sumarið 1900.

 

 

Heimildir:

Guðjón Friðriksson. (2005). Ég elska þig stormur?: ævisaga Hannesar Hafstein. Mál og menning.

Guðmundur Bergsson. (1900, 9.nóvember). Vatnsleiðslan á Ísafirði sumarið 1900. Þjóðólfur, bls. 202.

Ísafjörður árið 1868. Viðtal við Guðmund Pálsson beyki. (1935, 31. ágúst). Skutull, bls. 2–3.

Jón Grímsson. (1956). Ísafjörður fyrir 60 árum. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1956. Sögufélag Ísfirðinga.

Jón Steffensen, & Kristján Eldjárn. (1975). Menning og meinsemdir?: ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Sögufélag.

Jón Sigurðsson. (2011). Heilbrigðisástandið á Íslandi áður fyrr. Tímarit hjúkrunarfræðinga. 6. tbl. 87. árg. 2011, bls. 6–10.

Jón Þ. Þór. (1986). Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. II. bindi. Sögufélag Ísfirðinga.

Þórunn Valdimarsdóttir. (2002). Horfinn heimur?: árið 1900 í nærmynd. Mál og Mynd. Sögufélag.

 

 

 

Velja mynd