Kort af Skutulsfirði með merkingum um kröfur Óbyggðanefndar.

Úrskurðir óbyggðanefndar í málum í Ísafjarðarsýslum

Úrskurðir óbyggðanefndar í málum í Ísafjarðarsýslum (svæði 10B) voru kveðnir upp miðvikudaginn 30. ágúst 2023.

Haustið 2020 afhenti fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum á svæði sem við málsmeðferð nefndarinnar hefur verið auðkennt sem svæði 10B. Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, ber að kynna kröfur ríkisins til að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta svo að þeir geti eftir atvikum lýst kröfum á móti. Þeir sem töldu sig hafa eignarréttindi á landsvæðum sem féllu innan þjóðlendukröfusvæða íslenska ríkisins í Ísafjarðarsýslum höfðu frest til 1. febrúar 2021 til að lýsa kröfum fyrir óbyggðanefnd. Úrskurður nefndarinnar um fram komnar kröfur liggur nú fyrir að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu umræddra svæða.

Eftir uppkvaðningu úrskurða í málum í Ísafjarðarsýslum (svæði 10B) 30. ágúst 2023 hefur óbyggðanefnd lokið umfjöllun um fimmtán af sautján svæðum og þar með er lokið málsmeðferð á 95% af meginlandinu. 39,2% lands sem nefndin hefur lokið meðferð á teljast til þjóðlendna en 60,8% eru eignarlönd, að teknu tilliti til endanlegra niðurstaðna dómstóla. Af þeim hluta miðhálendisins sem nefndin hefur lokið meðferð á eru tæplega 86% þjóðlendur en rúmlega 14% eignarlönd. Heildarfjöldi skjala sem lögð hafa verið fram og rannsökuð við meðferð óbyggðanefndar á svæðum 1–10C er 33.246, að meðtöldum framlögðum hliðsjónargögnum, þar af voru skjöl á svæði 10B samtals 6.264.

Óbyggðanefnd - Úrskurðir og dómar

Velja mynd