
Gunnar Helgason heimsækir Bókasafnið
Fimmtudaginn 28. mars er aldeilis von á góðum gesti í Bókasafnið Ísafirði, en þá mætir til leiks barnabókahöfundurinn vinsæli Gunnar Helgason.
Fimmtudaginn 28. mars er aldeilis von á góðum gesti í Bókasafnið Ísafirði, en þá mætir til leiks barnabókahöfundurinn vinsæli Gunnar Helgason.
Gunnar Helgason gaf fyrst út barnabók árið 1992 og síðan hefur hann sent frá sér fjölmargar bækur. Meðal bóka hans er bókaflokkurinn um fótboltastrákinn Jón Jónsson, sem hófst með Víti í Vestmannaeyjum (2013) og bækurnar um Stellu, en fyrst bókin í þeim flokki var Mamma klikk (2015). Gunnar hefur fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar, til dæmis Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar (2013), Bókaverðlaun barnanna þrjú ár í röð 2013-15 og fyrir Mömmu klikk! hlaut Gunnar Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 í flokki barna- og unglingabókmennta.
Gunnar ætlar að segja okkur frá og lesa upp úr nýjustu bók sinni, Sigga Sítrónu, sem er fjórða bókin í bókaflokknum um Stellu. Svo hefur því verið hvíslað að okkur að Gunnar sé að semja nýja sögu og ef við erum heppin segir hann okkur frá henni líka.
Dagskráin hefst í salnum á 2. hæð kl. 16:00 og eru allir sem hafa áhuga velkomnir.