Öskudagspokar Baldurs í Vigur
Í tilefni öskudagsins á morgun, miðvikudaginn 18. febrúar, eru til sýnis í Safnahúsinu gamlir öskupokar úr fórum Baldurs Bjarnarsonar frá Vigur (1918-1998). Pokana eignaðist hann þegar hann var við kennslu í Súðavík í kringum 1947 en þar héldu börnin upp á öskudaginn samkvæmt hefðinni með því að hengja öskupoka á fólk. Hefur þeim líklega þótt vænt um kennarann sinn því mikið var lagt í pokana sem hengdir voru á hann.
Sú hefð að hengja öskupoka á fólk finnst ekki annars staðar en á Íslandi. Líklega má rekja upphaf þess til kaþólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið. Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld en er mögulega eldri. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum þannig að konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Síðar breyttist siðurinn þannig að fyrst og fremst börn hengdu öskudagspoka á aðra og þá sérstaklega fullorðna og lykilatriði var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því. Innihald pokans breyttist líka og gátu þeir verið með litlum gjöfum eða miðum. Þessi siður hefur þó nær alveg horfið og við tekið sá siður að börn gangi í grímubúningum í búðir og fyrirtæki og syngi til að fá sælgæti litlar gjafir eða annað góðgæti.
(Heimild: http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%96skudagur)