![](/datab_myndir/Syning.jpg)
Opnun á sýningu Kvenréttindafélags Íslands
Í gær var opnuð farandsýning Kvenréttindafélags Íslands sem er tileinkuð því að hundrað ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Af þessu tilefni var boðið upp á dagskrá í Safnahúsinu sem samanstóð af erindum og söng, auk þess sem kvenfélögin Hlíf og Hvöt buðu upp á veitingar.
Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, ávarpaði gesti með nokkrum orðum um réttindabaráttu íslenskra kvenna og þá áfanga sem náðst hafa en því næst sagði Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, sagnfræðingur, frá Andreu Guðmundsdóttur, saumakonu á Ísafirði sem fyrst íslenskra kvenna nýtti kosningarétt sinn skv. lögum þegar hún mætti á kjörstað 2. janúar 1884 og kaus í bæjarstjórnarkosningum. Salóme Katrín Magnúsdóttir söng síðan nokkur lög við undirleik Kristínar Hörpu Jónsdóttur og lauk dagskránni með því að Sigurður Pétursson sagnfræðingur flutti erindi um Þóru J. Einarsson sem m.a. var fyrsta menntaða hjúkrunarkonan á Íslandi og formaður fyrsta verkakvennafélagsins á Ísafirði.