
Sýningaropnun
Föstudaginn 24. apríl varð Litli leikklúbburinn á Ísafirði 50 ára og af því tilefni var opnuð sýning í sal Listasafns Ísafjarðar í Safnahúsinu. Það var mikið um dýrðir og fjöldi fólks lagði leið sína í húsið til að fagna þessum merka áfanga með afmælisbarninu.
Í tilefni afmælisins afhenti formaður Lilta leikklúbbsins, Steingrímur Guðmundsson, skjalasafninu gjörðabækur félagsins ásamt upptökum af leikritum. Ætlunin er að afhenda afganginn af eldri skjölum félagsins til safnsins síðar á árinu. Afhending sem þessi er mjög mikilvæg fyrir menningarsögu bæjarins og við á skjalasafninu hvetjum önnur félagasamtök til að hugsa til okkar.
Afmælissýningin er opin á opnunartímum hússins og mun standa fram í fyrri hluta júnímánaðar. Sjón er sögu ríkari og við hvetjum íbúa til að kíkja við í Safnahúsinu. Þess má geta að sýningin er samstarfsverkefni hússins og LL en hönnuðu hennar er Nína Ivanova. Þá gaf LL út veglegt afmælisrit sem hægt er að nálgast á sýningunni en um ritstjórn sá Ómar Smári.