Bjarndýr í Hornvík
Árið 1963 voru nokkrir menn staddir í Hornvík til að huga bjarginu þegar þeir urðu varir við ísbjörn. Þeir felldu dýrið sem reyndist birna í ansi góðum holdum. Feldur dýrsins ásamt vopninu sem notað var til að fella það voru afhent til varðveislu í Safnahúsinu síðastliðinn mánudag.
Þann 20. júní árið 1963 felldu þeir Stígur Stígsson, Kjartan Sigmundsson,Trausti Sigmundsson og Ole N. Olsen ísbjörn í Hornvík.
Feldurinn af dýrinu var afhentur til varðveislu í Safnahúsinu 20. júlí. Það voru börn Kjartans sem afhentu hann ásamt byssunni sem björninn var skotinn með.
Feldurinn var fyrst í eigu Ole Olsen og hafði hann feldinn lengi í rækjuverksmiðjunni og síðar heima hjá sér. Eftir lát hans fékk Selma dóttir hans feldinn og hafði á heimili sínu um árabil. Fyrir nokkrum árum fór Már Óskarssona að spyrja um feldinn og fékk hann til varðveislu. Már hafði samband við Davíð Kjartansson og spurði hvort byssan sem ísbjörninn var skotinn með væri enn í eigu fjölskyldunnar. Það reyndist vera en Már hafði hug á að feldurinn og byssan færu saman á safn og sagan með. Systurnar Bergrós Kjartansdóttir og Kirstín Kjartansdóttir eru í heimsókn á Ísafirði þessa dagana og þótti því tilvalið að afhenda feldinn. Þau systkinin komu svo á safnið með byssuna. Viðstaddur var einnig Stígur Stígsson ásamt Jóni Karli Helgasyni kvikmyndagerðarmanni. Til stendur að setja upp sýningu tengda þessum atburðum á vori komanda.