Inndjúpið - ný bók eftir Jón Pál Halldórsson

Laugardaginn 17. október verður Sögufélag Ísfirðinga með útgáfuhóf í Safnahúsinu í tilefni af nýútgefinni bók eftir Jón Pál Halldórsson sem ber heitið Inndjúpið. Bæir og ábúendur í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Í bókinni er fjallað um bæi og búendur í Inndjúpinu á öldinni sem leið en allt fram á fimmta áratug aldarinnar var búseta á nánast öllum bæjum á þessu svæði. Árið 1950 voru 400 íbúar í fjórum hreppum Inndjúpsins en þeim fór síðan fækkandi og voru orðnir 253 árið 1980 og 151 í árslok 1990. Í dag er búseta með hefðbundnum hætti á átta bæjum á svæðinu.

Þegar saga sveitanna í Inndjúpinu er rifjuð upp, birtist á sjónarsviðinu ótrúlegt mannlíf, sem nú er horfið. Það fólk, sem þarna ólst upp og bjó í áratugi, tilheyrir óvílsamri kynslóð sem lyfti grettistaki við erfiðar aðstæður. Það sá miðaldir hverfa en átti þess hins vegar ekki kost að taka þátt í innreið nútímans í íslenskt samfélag, eins og íbúar margra annarra byggðarlaga. Ungur að árum var höfundur bókarinnar sendur í sveit inn í Djúp en á þeim tíma lögðu margir foreldrar kapp á að koma börnum sínum á góð sveitaheimili yfir sumarmánuðina. Kynntist Jón Páll þá vel mörgu af því fólki sem á þeim tíma var búsett í Inndjúpinu og upplifði hann mannlíf og menningu sem nú heyrir sögunni til. Bókin er ríkulega myndskreytt og er það von höfundar að lesendur muni hafa ánægju af þeim fróðleik sem hún  hefur að geyma í bæði máli og myndum.

Sem fyrr segir verður haldið upp á útgáfu bókarinnar laugardaginn 17. október með athöfn sem hefst kl. 14 í Safnahúsinu á Ísafirði. Þar mun Jón Páll Halldórsson kynna og árita bókina sem verður til sölu á staðnum. 

Velja mynd