
Hestasmiðurinn Júlíana
Fimm hestar með afar merkilega sögu eru nú til sýnis í Safnahúsinu. Um er að ræða leikfangahesta gerða af Júlíönu Halldórsdóttur sem var fædd árið 1864 að Hóli í Önundarfirði. Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Halldórsson og Guðrún Jónsdóttir. Eignuðust þau sautján börn en ekki komust nema sjö þeirra til fullorðinsára. Halldór á Hóli var smiður góður og smíðaði margt fyrir nágrannana og sagt var að Guðrún hefði alltaf verið góð heim að sækja.
Júlíana var ekki gömul þegar hún byrjaði að klippa hesta út úr bréfi handa sér og yngri systkinum sínum til þess að leika sér að. Þegar hún var komin yfir fermingu tálgaði hún hest úr tré handa yngri börnunum en fáum árum síðar var farið að sjá verulega á honum, brotnar af honum lappirnar o. fl. Fór Júlíana þá að velta fyrir sér hvernig hún ætti að búa til nýjan hest, svo að vel mætti fara. Upp úr þessu fór hún að búa til hesta með þeirri gerð, sem hún varð þekktust fyrir.
Hestarnir vöktu fljótt athygli fyrir mikinn hagleik og fóru Júlíönu að berast pantanir á hestum víða að. Einhverjir munu hafa verið keyptir af erlendum mönnum og seldir til útlanda. Júlíana stundaði þessa iðn sína að vetrarlagi eftir því sem við varð komið frá öðrum heimilisstörfum. Fæddust hestarnir hjá henni – rauðir, jarpir og leirljósir, brúnir, bleikir, moldóttir og mósóttir, henni sjálfri og mörgum öðrum til ánægju. Er talið að Júlíana hafi búið til yfir 100 hesta, mismunandi að stærð og lit. Hún varð samt ekki rík af þessari leikfangagerð, hestana seldi hún við vægu verði og marga gaf hún. Í elli sinni fékk hún viðurkenningu frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands fyrir þennan heimilisiðnað sinn, 500 krónur.
Á seinni árum dvaldi Júlíana á Kirkjubóli í Bjarnardal á heimili systur sinnar, Bessabe Halldórsdóttur. Því heimili vann hún svo meðan kraftar entust en hún lést á útmánuðum árið 1946 á 82. aldursári.
Hestarnir fimm sem sýndir eru í Safnahúsinu eru allir í einkaeigu.