Umhverfis djúpan fjörð

Föstudaginn 22. ágúst klukkan 16 opna Guðbjörg Lind Jónsdóttir og Hjörtur Marteinsson sýninguna Umhverfis djúpan fjörð í Listasafni Ísafjarðar í Gamla sjúkrahúsinu. Á sýningunni leiða þau sýningargesti í ferðalag um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Viðfangsefni sýningarinnar er landið og breytilegar birtingarmyndir þess annars vegar að degi til og hins vegar að nóttu.

Föstudaginn  22. ágúst klukkan 16 opna Guðbjörg Lind Jónsdóttir og Hjörtur Marteinsson sýninguna Umhverfis djúpan fjörð í Listasafni Ísafjarðar í Gamla sjúkrahúsinu.

Á sýningunni leiða þau sýningargesti í ferðalag um kunnar jafnt sem ókunnar slóðir. Viðfangsefni sýningarinnar er landið og breytilegar birtingarmyndir þess annars vegar að degi til og hins vegar að nóttu.

Sýningin er afrakstur margra leiðangra listamannanna um Vestfjarðakjálkann en vísar einnig til ferða fyrri tíðar manna sem fetuðu sömu slóðir fyrir löngu og skynjuðu landið ef til vill með allt öðrum hætti. Verk listamannanna beina sjónum að óútskýranlegum sem og raunsönnum fyrirbærum náttúrunnar þar sem allt er breytingum undirorpið.

Guðbjörg Lind Jónsdóttir er fædd á Ísafirði 1961 og hefur haldið fjölda sýninga hér heima og erlendis. Í verkum sínum hefur hún löngum fjallað um  kyrrðina og fjarveru mannsins í dulu og oft óræðu landslagi í eyjum eða upp við fossa. Í málverkum hennar er fólgin ferð á vit afkima heimsins þar sem maðurinn skynjar hið upphafna í einfaldleikanum sjálfum.

Hjörtur Marteinsson er fæddur í Reykjavík árið 1957. Hann hefur oftlega í verkum sínum fléttað vísindi og furður fyrri alda saman við sýn nútímamannsins á heiminn í bland við trúarlega skynjun hans á duldum fyrirbærum tilverunnar.

Hjörtur hefur einnig fengist við ritstörf og gefið út ljóðabækurnar Ljóshvolfin 1996 og Myrkurbil 1999 auk skáldsögunnar AM 00 sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000.

 

Sýningin stendur til laugardagsins 4. október 2014 og er Gamla sjúkrahúsið opið frá klukkan 13-18 virka daga og laugardaga klukkan 13-16. Aðgangur er ókeypis.

 

Sýningin er tileinkuð minningu Ingu Ruthar Olsen (19.6.1931 –  6.8. 2013) og

Jóns Hermannssonar (14.11. 1930 – 4.1. 1999).

 

Velja mynd