Norræni skjaladagurinn 9. nóvember
„Geymt en ekki gleymt“ er yfirskrift norræna skjaladagsins 2019 sem að þessu sinni er haldinn laugardaginn 9. nóvember. Að venju munu Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn um allt land nota þetta tækifæri til að sýna skjöl og myndir úr safnkosti sínum.
Í skjalasöfnum eru geymdar heimildir um þjóðarsöguna í smáu sem stóru. Flest af því er öllum almenningi óþekkt fyrr en komið er á skjalasafnið og farið að skoða safnkostinn. Þá rennur ef til vill upp fyrir einhverjum að þar er margt merkilegt og skemmtilegt að sjá; gögn sem eru geymd, en ekki gleymd. Finna má ýmis dæmi um heimildir sem tengjast þema dagsins með einhverjum hætti á vef norræna skjaladagsins. Þar er hægt að lesa nánar um þemað í leiðara skjaladagsins og kanna hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem hafa opið á skjaladeginum 9. nóvember 2019.
Að þessu sinni sýnir Skjalasafnið Ísafirði annars vegar skemmtilegt skjal sem tengist störfum bæjarstjóra Ísafjarðarkaupstaðar um miðja 20. öld og hins vegar gamlar stereóskópmyndir frá vestfirsku menningarheimili við Djúp.
Skjalasafnið Ísafirði er staðsett í Safnahúsinu á Eyrartúni sem er opið frá kl. 13 til 18 á virkum dögum og kl. 13 til 16 á laugardögum.