
Kröfur um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum og Barðastrandarsýslum
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum og Barðastrandarsýslum, á svæði sem er við málsmeðferð nefndarinnar auðkennt sem svæði 10B og 10C.
Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, kynnir kröfur ríkisins til að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta svo að þeir geti eftir atvikum lýst kröfum á móti. Kröfurnar ná til 45 svæða og þeir sem telja sig hafa eignarréttindi á landsvæðum sem falla innan þjóðlendukröfusvæða íslenska ríkisins hafa frest til 1. febrúar 2021 til að lýsa kröfum fyrir óbyggðanefnd. Að því búnu verða heildarkröfur kynntar og óbyggðanefnd rannsakar málin. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu umræddra svæða úrskurðar óbyggðanefnd um fram komnar kröfur.