
Gamalt bréf með frásögn sjónarvotts að banatilræðinu við Lincoln forseta
Eldri kona í Bandaríkjunum mætti í þáttinn Antiques Roadshow með bréf frá afa sínum, skrifað í Washington DC þann 21. apríl 1865. Í bréfinu segir hann frá því að hann hafi farið með félögum sínum í leikhús þann 14. apríl þar sem hann varð vitni að banatilræði við Abraham Lincoln, forseta Bandaríkjanna, sem lést af sárum sínum daginn eftir.
Að mati sérfræðings þáttarins hefur bréfið mikið sögulegt gildi og yrði metið á 10-15 þús. dollara (1-1,5 mkr.) ef það færi á uppboð. Taldi hann þó allar líkur að það myndi seljast fyrir mun hærri upphæð.
Þættirnir Antiques Roadshow eru breskir að uppruna og hafa verið sýndir frá árinu 1979. Þeir eru teknir upp víða um Bretland þar sem íbúum gefst kostur á að koma með gamla muni, fræðast um þá og fá verðmat sérfræðinga. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og eru nú framleiddir í ýmsu löndum. Þeir sem hafa aðgang að erlendum sjónvarpsstöðum, eins og t.d. DR, geta fylgst með þáttunum en en einnig er hægt að sjá brot úr þeim á ýmsum vefmiðlum, t.d. Facebook og Youtube.
Umfjöllun Antiques Roadshow má sjá hér og frekari upplýsingar um Abraham Lincoln og morðið á honum má m.a. finna á Vísindavefnum.