Elstu fundargerðarbækur byggingarnefndar komnar á vefinn
Á skjalasafninu hefur verið unnið að því að skanna elstu fundagerðabækur byggingarnefndar Ísafjarðarkaupstaðar og gera þær aðgengilegar bæði almenningi og fræðimönnum á vefnum. Fyrr á þessu ári var elsta fundabók byggingarnefndar Ísafjarðarkaupstaðar sett á vefinn en hún tekur yfir tímabilið 1866-1896.
Tvær fundabækur til viðbótar hafa nú verið settar inn á vefinn, annars vegar fundabók fyrir byggingarnefnd Ísafjarðar 1896-1911 og hins vegar gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 1911-1929. Fundagerðabækurnar innihalda miklar upplýsingar um uppbyggingu kaupstaðarins og skipulagsmál. Þá varðveita þær einnig upplýsingar um einstök hús sem geta nýst vel við endurgerð gamalla húsa á Ísafirði. Bækurnar má finna hér eða á síðu skjalasafnsins undir „Skjöl á vefnum“
Verkefnið er styrkt af Þjóðskjalasafni Íslands.