
Skjalasafnið fær skjöl úr fórum séra Sigtryggs Guðlaugssonar og Hjaltlínu Guðjónsdóttur á Núpi
Nýverið afhenti Ragnheiður Hlynsdóttir skjalasafninu skjöl og ljósmyndir úr dánarbúi hjónanna sr. Sigtryggs Guðlaugssonar (1862-1959), prests og skólastjóra á Núpi í Dýrafirði, og Hjaltlínu Guðjónsdóttur (1890-1981), kennara og húsfreyju. Skjölin koma frá Hlíð, heimili þeirra hjóna á Núpi þar sem þau bjuggu alla tíð, frá því snemma á 20. öldinni og fram að andláti sr. Sigtryggs árið 1959. Þau áttu tvo syni Hlyn (1921-2005) og Þröst (1929-2017). Húsið hefur undanfarin árið verið rekið sem menningarminjasafn um séra Sigtrygg og Hjaltlínu en heimilið hefur verið varðveitt í upprunalegri mynd frá þeirra tíð.
Séra Sigtryggur fæddist 27. september 1862 á Þröm í Garðsárdal í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Guðlaugur Jóhannesson og Guðný Jónasdóttir. Hann tók embættispróf í guðfræði árið 1897, var veturinn eftir barnakennari í Reykjavík og vígðist til prests haustið 1898. Fyrsta veturinn var hann settur prestur í Svalbarðs- og Presthólaprestaköllum, en veittur Þóroddsstaður og Lundarbrekka vorið 1899. Það vor giftist hann Ólafíu Sigtryggsdóttur frá Steinkirkju í Fnjóskadal. Hún lést haustið 1902. Vorið 1905 fluttist hann vestur að Núpi í Dýrafirði þar sem hann var sóknarprestur til ársins 1938.
Sigtryggur stofnaði ungmennaskóla að Núpi árið 1907 og stýrði honum til 1929. Hann var mikill bindindismaður alla tíð og stofnaði góðtemplarastúkuna Gyðu nr. 120 á Núpi. Stúkan starfaði í áratugi og á hennar vegum var haldið uppi merkilegri menningarstarfsemi, eins og leiksýningum, sem þótti fátítt í sveitum á þeim tíma. Séra Sigtryggur var sönghneigður og var tónlistin jafnan eitt af hans hugstæðustu viðfangsefnum. Hafði hann á yngri árum notið tilsagnar í orgelleik og söngfræði og nýtti þá þekkingu síðar við söngkennslu og sem organisti.
Séra Sigtryggur horfði til boðskaps ungmennafélaganna um að bæði ætti að rækta land og lýð. Árið 1909 hóf hann ræktun garðs sem fékk heitið Skrúður og var upphaflega ætlaður sem kennslugarður fyrir nemendur í ungmennaskólanum að Núpi. Garðinn skyldi nýta til kennslu í jurtafræði og garðrækt en í dag er hann einn elsti skrúðgarður landsins.
Árið 1918 gekk Sigtryggur í hjónaband með Hjaltlínu Guðjónsdóttur frá Brekku á Ingjaldssandi. Foreldrar hennar voru Guðjón Arnórsson og Rakel Sigurðardóttir. Hjaltlína var í skóla á Núpi 1908-1910, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Reykjavíkur 1915 og stundaði á sama tíma nám við Gróðrastöðina í Reykjavík. Hún starfaði sem farkennari í Dýrafirði, kennari á Núpi og vann ásamt manni sínum að ræktun Skrúðs. Sigtryggur lést 2. ágúst 1959 og Hjaltlína 30. janúar 1981.