Gömul félagsblöð birt á vefnum innan tíðar

Á Skjalasafninu Ísafirði eru varðveitt fjölmörg félagsblöð ungmenna- og íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta eru handskrifuð blöð sem innihalda fjöldbreytt efni sem látið var berast manna á milli innan hvers félagssvæðis eða lesið upp á fundum. Þarna birtust ferðasögur, frásagnir og kvæði, hugleiðingar um ýmis þjóð- og framfaramál auk þess sem þar urðu gjarnan skemmtileg orðaskipti bæði í bundnu og lausu máli. Starfið innan félaganna var góður skóli í félagsmálum því þar lærðu félagsmenn að orða hugsanir sínar í ræðuformi og að festa þær á blað.

Skjalasafnið fékk á árinu 2018 styrk frá Þjóðskjalasafni Íslands til skönnunar og miðlunar á elstu félagsblöðum nokkurra ungmenna- og íþróttafélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Ágúst G. Atlason ljósmyndari hefur verið ráðinn tímabundið til að vinna þetta verkefni og má gera ráð fyrir að fyrstu blöðin birtist innan tíðar á vef Skjalasafnins. Blöðin sem um ræðir eru:  

Íþróttafélagið Stefnir, Suðureyri. Blaðið „Röðull“ 1920-1925. 462 blaðsíður.

Ungmennafélagið Vorblóm, Ingjaldssandi. Blaðið „Ingjaldur“ 9.-15. árg. 1917-1924. 171 blaðsíða.

Ungmennafélagið Árvakur, Ísafirði. „Ráðsviðr“ Blað U.M.F. "Árvakur" 1921-1924, 1.-4. árg. 350 blaðsíður.

Ungmennafélagið Framsókn, Ögurhreppi. Blaðið „Unglingur“ 1.-4. árg. 1923-1926. 184 blaðsíður.

Ungmennafélagið Gnýpa. „Fram“, blað UMF Gnýpu I.-VI. árg. 1909-1915. 326 blaðsíður.

Velja mynd